Af vettvangi dagsins
Eldra efni >>








Hjörleifur Guttormsson 24. janúar 2025

Breytt staða í heimsmálum eftir endurkjör Donalds Trump

Forsetar Bandaríkjanna hafa lengi verið nálægir í hugum okkar Íslendinga. Ég minnist góðra orða föður míns um Franklin D. Roosevelt í vetrarlok 1945 úti á túninu heima degi eftir skyndilegt fráfall hans. Afstaða Bandaríkjanna til lýðveldisstofnunar hérlendis árið áður var mönnum þá í fersku minni. Með forsetakjöri vestra hefur síðan jafnan verið fylgst af áhuga hérlendis, þótt mismunandi afstaða til bandarískra herstöðva hafi lengi vel skipt mönnum í hópa.

Bandaríkin gegn umheiminum

Aðdragandi forsetakosninganna í Bandaríkjunum var nú sem stundum áður óvenjulegur. Demókratar veðjuðu fram undir lok kjörtímabils öðru sinni á öldunginn Joe Biden sem forsetaefni, en hann varð 82ja ára í nóvember sl. Frambjóðandakipti yfir á Kamölu Harris varaforseta á síðustu stundu drógu eflaust úr líkum hennar á kjöri gegn Trump, sem og varð niðurstaðan.

Við innsetningu í forsetaembættið á ný var af nógu að taka af hálfu Trumps. Hann staðfesti þá stefnu sína að segja Bandaríkin frá aðild að Parísarsáttmálanum frá 2015 um loftslagsmál og boðar aukna olíu- og gasvinnslu heima fyrir þótt borgir eina og Los Angeles standi í ljósum logum tengdum breyttu umhverfi.

Ekki þarf lengi að leita til að sjá að Trump er öðru fremur fulltrúi hinna ríku, sem veðja á stundargróða en loka augum fyrir aðsteðjandi hættum, m.a. af loftslagsvá sem virðir engin landamæri, en kallar á samræmd alþjóðleg viðbrögð.

Er Gænland til sölu?

Það tiltæki Trumps að bjóðast til að Bandaríkin kaupi Grænland, er lýsandi dæmi um hugsunarhátt hans. Hugmynd í þessa veru var reyndar sett fram af ríkisstjórn Bandaríkjanna þegar árið 1946 í tíð Harry S Trumans sem forseta. Í fyrri forsetatíð sinni 2019 nefndi Trump sömu hugmynd, þá tengt fyrirhugaðri heimsókn til Danmerkur sem ekkert varð úr. Þann 7. janúar sl.sendi hann son sinn Donald í heimsókn til Nuuk, án þess sá hefði nokkurt umboð nema föðurnafnið. Mette Fredriksen forsætisráðherra Danmerkur brást við þessu með því að segja að umræða um sjálfstæði Grænlands færi fram í Nuuk og Grænland tilheyrði íbúum þess. Á blaðamannafundi eftir síðustu áramót var haft eftir Trump að hann útiloki ekki að nota hernaðarlegan eða efnhagslegan styrk til að færa Grænland undir Bandaríkin.

Spenna USA gagnvart Evrópuríkjum

Stefnuyfirlýsingar Trumps hitta marga fyrir. Það á ekki síst við um Evrópusambandið og einstök ríki þess. Kosningabarátta til þings stendur yfir í Þýskalandi og þar hefur Olaf Scholz m.a. gagnrýnt margt í stefnu nýs Bandaríkjaforseta. Evrópusambandið á efnahagslega í vök að verjast, bæði gagnvart Bandaríkjunum og Kína. Á heimskortinu blasir um margt við nýr veruleiki eftir forsetaskiptin í Bandaríkjunum. Óvíst er hvert hann muni leiða, en vaxandi gjár og átök þvert á höf og álfur er það sem heimsbyggðin þarf nú síst á að halda.

Hjörleifur Guttormsson

 

Prentvæn útgáfa

Af vettvangi dagsins - eldra efni

Til baka | |   Heim