Hjörleifur Guttormsson | 21. ágúst 2003 |
Hvalveiðar undir fölsku flaggi Óraunsæi og óskhyggja hefur lengi einkennt framgöngu íslenskra stjórnvalda þegar hvalir eru annars vegar. Í hálfan annan áratug hafa sjávarútvegsráðherrar alið hrefnuveiðimenn og fleiri á þeirri tálsýn að komið væri að því að hefja hvalveiðar á ný fyrir alvöru og oftar en ekki gert Alþingi að skálkaskjóli þegar dráttur hefur á orðið. Hefur þó lengi legið fyrir stuðningur alþingismanna við það sjónarmið að hvalir séu ekki heilagar skepnur og það sé framkvæmdavaldsins að taka ákvarðanir um nýtingu þeirra. Hringlandaháttur ríkisstjórna Davíðs Oddssonar gagnvart Alþjóða hvalveiðiráðinu (IWC) hefur verið til vansa og ákvörðun um svonefndar vísindaveiðar nú er ekki líkleg til að bæta stöðu Íslands á þeim vettvangi. Á ársfundi ráðsins fyrr á þessu ári var samþykkt að hvetja aðildarríkin til að hverfa frá svokölluðum vísindaveiðum og innan vísindanefndar ráðsins voru skoðanir mjög skiptar að því er varðaði fyrirhugaðar veiðar Íslendinga. Ákvörðun sjávarútvegsráðherra nú er tekin í blóra við nýlega samþykkt ráðsins, þótt mjótt væri á munum í atkvæðagreiðslu (24:21). Óljósar og veikar forsendur Með ákvörðun sinni um að láta veiða á næstu vikum 38 hrefnur færist Árni Matthiesen meira í fang en halda mætti út frá veiðiheimildinni einni saman. Vegna blómstrandi hvalaskoðunar sem atvinnugreinar hérlendis hafa viðhorf almennings til nýtingar í formi veiða breyst frá því sem áður var. Flestum er ljóst að markaðir fyrir hvalaafurðir erlendis eru lokaðir og litlar líkur á að það breytist á næstu árum. Við þær aðstæður geta alvöru hvalveiðar ekki orðið að veruleika. Fórnarkostnaður af veiðum og sýnatöku úr nokkrum tugum eða hundruðum dýra er í engu hlutfalli við líklegan ávinning og birtist nú þegar í andmælum víðsvegar og óvild margra í garð okkar Íslendinga. Þótt flestum hérlendis þyki öfgakennd andmæli og tilfinningaþrunginn áróður gegn hvalveiðum lítt skiljanlegt athæfi breytir það engu um veruleikann sem við blasir. Þetta ætti að vera mönnum ljóst eftir Keikó-ævintýrið og vonlítið að ætla sér að breyta þeim hugarheimi, hvað þá að afla nýrra markaða fyrir hvalaafurðir. Dæmið gengur ekki upp Það sambland af pólitík og vísindarökum sem birtist í áætlun Hafrannsóknastofnunar og kynningu sjávarútvegsráðherra á henni er heldur göróttur kokteill. Sjaldan mun slíkt tilstand hafa verið gert með sýnatöku úr 38 sjávarkvikindum og reiðilestur vestan um haf frá heimslögreglunni er krydd í farsann. Afránsútreikningar Hafrannsóknastofnunar og túlkun stjórnmálamanna og talsmanna hagsmunasamtaka á þeim er vægast sagt misvísandi og elur á ranghugmyndum um möguleika manna til að stjórna lífríki sjávar í heild sinni. Í fréttatilkynningu Hafró erum við frædd á því að samkvæmt mati frá 1997 taki 12 hvalategundir hér við land til sín 6 miljónir tonna af sjávarfangi árlega, hrefna þar af þriðjung og sé fiskur í fæðu hennar ein miljón tonna árlega, þorskur um 60 þúsund tonn. Magasýnatakan nú á að gera kleift að fínpússa þessar ágiskanir. Óbein skilaboð að baki eru hins vegar önnur og alvarlegri, það er að fýsilegt geti verið að drepa nógu margar hrefnur til að meira sé til skipta fyrir manninn sem keppinaut í afráninu. 12 þúsund hrefnur í skotmáli? Ekki er ágreiningur um að fjöldi hrefna á íslenska landgrunninu geti nú numið um 43 þúsund dýrum byggt á nýlegum talningum. Vegna ónákvæmni í stofnmælingum og vegna breytileika í umhverfisþáttum er oft talað um fjórðungs niðurskurð á sókn eða stofnstærð sem lágmark til að fá fram mælanleg áhrif á afrakstur. Vilji menn leita svara um þessi efni í reynd og stefna að stjórnun á afráni með því að halda niðri hvalastofnum þarf allt annað og meira blóðbað en rannsóknaáætlun Hafró gerir ráð fyrir. Að því er hrefnuna varðar og miðað við fjórðungsfækkun þyrfti að veiða um 12 þúsund dýr, til dæmis á 5 árum, sem þýðir yfir 2000 dýr á ári. Þegar Íslendingar veiddu mest af hrefnu á öldinni sem leið voru tekin 200 dýr árlega eða innan við tíundi hluti þess sem marktækt gæti talist í ofangreindu samhengi. Það væri æskilegt að þeir sem nú hafa hæst um fækkun hvala til að geta sótt meira í þorskinn skoði málið í samhengi og þá einnig Hafró og yfirboðari þeirrar ágætu stofnunar. Hjörleifur Guttormsson |