Hjörleifur Guttormsson | 23. nóvember 2013 |
EES-samninginn þarf að endurskoða hið fyrsta Miklar deilur voru hérlendis í aðdraganda EES-samningsins á árunum 1989–1994. Ég var í hópi þeirra sem vöruðu við yfirtöku á fjórfrelsi innri markaðar ESB, ekki síst að því er varðar frjálsar fjármagnshreyfingar. Með því væri m.a. fórnað þeim stjórntækjum í efnahagssstarfsemi sem þjóðir hafa lengi stuðst við. Talsmenn EES blésu á slíkar aðvaranir og þáverandi utanríkisráðherra gekk svo langt að segja að með samningnum hefðu Íslendingar fengið „allt fyrir ekkert“. Aðvörunum um að samningurinn bryti gegn stjórnarskránni var hafnað, en nú eru flestir þeirrar skoðunar að sú sé reyndin. Færibandaafgreiðsla Alþingis á tilskipunum ESB hefur lengi verið ljóður á störfum þingsins og staðfestir svartsýnustu spádóma um afleiðingar samningsins. EES reyndist ávísun á hrunið Eftir að efnahagshrunið reið hér yfir haustið 2008 benti þáverandi forsætisráðherra, Geir H. Haarde, ítrekað á að EES-samningurinn og þá sérstaklega tilskipun nr. 94/19/EB hafi valdið því að ekki hefði verið unnt að koma böndum á útþenslu íslensku bankanna. Nefnd tilskipun um innistæðutryggingakerfi var innleidd hér þegar árið 1996 og reglur hennar voru teknar upp í lög nr. 98/1999 sem enn voru í gildi við fall bankanna í október 2008. Enn er glímt við afleiðingarnar, þar á meðal innistæður erlendra kröfuhafa hérlendis. Í fróðlegri grein Ragnars Önundarsonar fyrrum bankastjóra í Morgunblaðinu 18. nóvember sl. vekur hann athygli á að vandmeðfarnast af fjórfrelsinu séu frjálsir flutningar fjármagns. Orðrétt segir Ragnar:
LO í Noregi krefst endurskoðunar EES Í Noregi hefur gagnrýni á EES-samninginn farið vaxandi í verkalýðshreyfingunni, þrátt fyrir að pólitísk forysta norskra sósíaldemókratar hafi fyrr og síðar reynt að slá pólitíska skjaldborg um samninginn. Þing norska alþýðusambandsins (LO-kongressen) samþykkti 7. maí 2013 samhljóða eftirfarandi ályktun sem hluta af aðgerðaáætlun sinni fyrir tímabilið 2013–2017:
Í aðdraganda þessarar samþykktar höfðu mörg norsk verkalýðssambönd ályktað í svipaða veru. Þá hefur stjórnin í Fagforbundet bent á að þróunin innan EES með nýjum tilskipunum og ekki síst túlkunum ESB-dómstólsins gangi gróflega gegn því sem gefið var til kynna í aðdraganda samningsins. Víða áhyggjur af EES og fjórfrelsinu Áhyggjur af yfirgangi ESB-tilskipana á kostnað launafólks eru engan veginn bundnar við Noreg. Mikill meirihluti á Evrópuþinginu ályktaði haustið 2008 að fjórfrelsi innri markaðarins mætti ekki skerða grundvallarréttindi launafólks. Verkalýðssamband Evru-ríkjanna hefur frá 2009 krafist þess að með skuldbindandi samþykkt verði tryggð félagsleg grundvallarréttindi sem fái staðist ákvæði ESB-sáttmálans. Undir samskonar kröfu hefur vinnumarkaðsnefnd sænska þjóðþingsins tekið og studdu hana m.a. sænskir sósíaldemókratar. Síðastliðið vor sendu 530 evrópskir lögmenn í vinnurétti frá sér sterkar aðvaranir vegna kerfisbundinna árása á launasamninga sem leiði til óvissu og vaxandi fátæktar. EES-endurskoðun má ekki dragast Stuðningsmenn aðildar Íslands að Evrópusambandinu hafa frá upphafi litið á EES-samninginn sem vogarstöng til að koma Íslandi inn í Evrópusambandið. Slíkt væri að fara úr öskunni í eldinn. Þess í stað standa öll rök til þess að hefja endurskoðun samningsins með það fyrir augum að styrkja fullveldi þjóðarinnar og treysta lýðréttindi alþýðu. Eðlilegast væri að fá samningnum breytt í gagnkvæman fríverslunar- og samstarfssamning Íslands og Evrópusambandsins. Hjörleifur Guttormsson |