Anna Þorsteinsdóttir Anna Þorsteinsdóttir mágkona mín var einkar ljúf í lund og skemmtileg heim að sækja. Hún giftist Þórhalli hálfbróður mínum og kennara sumarið 1955 þegar hann stóð á þrítugu. Þau hófu búskap sinn á Selfossi, þar sem Þórhallur var kennari um skeið. Hjá þeim dvaldi ég ásamt fleiri skyldmennum um páskana 1956 og bjó lengi að þeirri heimsókn. Áður höfðu leiðir okkar Önnu þó legið saman í verkamannabústað fósturforeldra hennar við Bræðraborgarstíg. Sé ég hana þar ætíð fyrir mér unga og glæsilega sem þá tilvonandi mágkonu. Anna útskrifaðist með próf frá Verslunarskólanum1949. Reyndist það henni notadrjúgt, Sá skóli varð síðar lengi starfsvettvangur bónda hennar. Skólagangan þar gagnaðist Önnu vel, m.a. þegar hún var ritari um skeið við Atvinnudeild Háskólans áður en þau Þórhallur hófu búskap. Vegna búsetu okkar Kristínar eystra lágu leiðir okkar og fjölskyldu Önnu helst saman í stuttum heimsóknum okkar í höfuðstaðnum. Þeim fjölgaði þó eftir að Alþingi varð minn helsti starfsvettvangur um skeið. Ég heimsótti þau hjón þá öðru hvoru í Barmahlíð og á Meistaravöllum, þar sem landsmálin voru rædd. Í mínu minni reyndist Anna þá oft róttækari í skoðunum en eiginmaðurinn. Ég sá syni þeirra, Þorstein og Pál, vaxa úr grasi og reyndar dvaldi sá fyrrnefndi hjá okkur Kristínu part úr sumri í Neskaupstað 1968. Sagnfræðingnum Þorsteini hef ég síðan kynnst sem ötulum aðstoðarmanni við að rýna í fortíð ættfeðranna. Fyrir Þórhall bróður var Anna mikil heilladís og reyndist honum stoð og stytta í veikindum, áður en hann kvaddi fyrir 15 árum. Við Kristín minnumst Önnu mágkonu fyrir glaðværð og gott úthald í blíðu og stríðu. Hjörleifur
Guttormsson |